Hvernig virkar bóluefni

Bóluefni örva viðbrögð ónæmiskerfisins við veiru eða bakteríu. Það býr til „minni“ í ónæmiskerfinu. Þetta ónæmisminni gerir líkamanum kleift að „muna eftir“ tiltekinni veiru eða bakteríu svo hann geti varið sig gegn veirunni eða bakteríunni og komið í veg fyrir sjúkdómana sem hún veldur.

Flest bóluefni innihalda veiklað eða óvirkt (deytt) form af veiru eða bakteríu eða lítinn hluta af veirunni eða bakteríunni sem getur ekki valdið sjúkdómi. Þetta er kallað mótefnavaki.

Þegar einstaklingur fær bóluefni skynjar ónæmiskerfi hans mótefnavakann sem framandi. Það virkjar ónæmisfrumurnar svo að þær drepa veiruna eða bakteríuna, sem veldur sjúkdómnum, og myndar mótefni gegn þeim.

Það virkjar einnig ónæmisfrumur - sem nefnast T-frumur og B-frumur - í blóðinu, í beinmergnum og út um allan líkamann.

Seinna, ef viðkomandi kemst í snertingu við hina raunverulegu veiru eða bakteríu, mun ónæmiskerfi hans muna eftir því.

Hann getur síðan myndað réttu mótefnin og virkjað réttu ónæmisfrumurnar til að drepa veiruna eða bakteríuna. Það ver einstaklinginn gegn sjúkdómnum.

Mismunandi bóluefni veita mismunandi mikla vernd. Tíminn, sem það ver gegn, fer líka eftir sjúkdóminum sem það verndar gegn. Sum bóluefni geta aðeins varið gegn sjúkdómi í stuttan tíma og geta þurft endurbólusetningu, en hjá öðrum getur ónæmið varað út ævina.

Bóluefni ver ekki aðeins fólkið sem fær bóluefnið. Með því að minnka líkur á útsetningu fyrir sýkingu verja bóluefni einnig óbólusetta í samfélaginu með óbeinum hætti, líkt og börn sem eru of ungt til að vera bólusett eða fólk með veiklað ónæmiskerfi.

Slíkt samfélagsónæmi (einnig nefnt hjarðónæmi) þarfnast þess að nægilega stór hópur fólks á svæðinu hafi verið bólusettur.

Hins vegar getur fólk sem verður ónæmt af því að fá sjúkdóminn:

  • útsett aðra fyrir sjúkdóminum
  • skapað sér mikla hættu vegna alvarlegra aukaverkana af völdum sjúkdómsins.
How vaccines work
1. Mótefnavaki 2. Mótefni 3. Ónæmissvörun

Prótínbyggð bóluefni

Bóluefni, sem byggja á prótínum innihalda litla prótínhluta af veiru eða bakteríu sem ónæmiskerfið greinir sem framandi.

Á meðal þeirra eru þekkt bóluefni eins og gegn flensu, stífkrampa og kíghósta.

Bóluefnin innihalda oft prótín af yfirborði veirunnar. Þessi prótín gera veirunni kleift að festa sig við frumur í mannfólkinu og sýkja þær. En í bóluefninu örva þessi prótín, sem búin eru til á rannsóknarstofu, aðeins ónæmiskerfið og valda hvorki sýkingu né sjúkdómi.

Prótínbyggð bóluefni innihalda oft efni sem nefnast ónæmisglæðar. Þau styrkja svar ónæmiskerfisins við bóluefninu og auka verndina.

Prótínbyggð bóluefni hafa verið notuð í mörg ár.

Nýlega veitti Evrópusambandið (ESB) leyfi fyrir nýjum bóluefnum, sem byggja á prótínum, þar á meðal bóluefni gegn COVID-19.

mRNA og veirugenaferjubóluefni

Í stað prótíns innihalda mRNA og veirugenaferjubóluefni fyrirmæli til fruma í mannfólkinu sem segir þeim hvernig þær eigi að búa til mótefnisvakaprótín. Slík fyrirmæli geta verið tvenns konar:

  • sameind sem kallast mótandi RNA eða mRNA;
  • genaupplýsingar inni í skaðlausri „genaferju“ eða veirubera sem er breytt þannig að þær geta ekki valdið sjúkdómi.

Þegar einstaklingi er gefið mRNA eða genaferjubóluefni lesa sumar frumurnar þessar leiðbeiningar. Þessar frumur framleiða síðan mótefnisvakaprótín í skamma stund áður en þær brjóta niður mRNA-efnið eða skaðalausu veiruna.

Ónæmiskerfið ber kennsl á mótefnisvakaprótínið, sem frumur líkamans mynda, sem framandi og virkjar ónæmisfrumurnar og myndar mótefni.

Vísindamenn hafa unnið að þróun mRNA og veirugenaferjubóluefna í áratugi og náð verulegum árangri á síðustu árum.

Eftir auknar fjárfestingar í upphafi COVID-19 heimsfaraldursins árið 2020 voru fyrstu fjögur bóluefnin gegn COVID-19, sem fengu markaðsleyfi í ESB, mRNA eða veirugenaferjubóluefni.

Frekari upplýsingar um bóluefnin og hvernig Evrópusambandið stóð að leyfisveitingu þeirra má finna á: COVID-19 bóluefni.

COVID-19 bóluefni

Fáðu frekari upplýsingar um hvernig COVID-19 bóluefni virka, þróun þeirra og samþykki og hvernig fylgst er með öryggi þeirra.

Page last updated 6 apr 2022